DAGBÓK

29.10.20. Við verðum að elska hvert annað ellegar deyja

Hún kom mér gersamlega í opna skjöldu konan sem kom hlaupandi á móti mér gaf mér skyndilega það sem kallað er high five. Ég hafði sjálfur á hlaupum mínum verið niðursokkinn í hljóðbók sem ég hef í eyrunum þegar ég skokka eftir Strandvejen (Vetrarfrí eftir Hildi Knútsdóttur). Unga konan var ljóshærð, hljóp hratt og elegant (því hafði ég tekið eftir) með kirkjugarðssteinhleðsluna á aðra hönd en umferðina á Strandvejen á hina. Ég hafði líka tekið eftir að hún hafði grænar grifflur á höndunum eins og persóna í Charles Dickens-sögu. Lófar okkar snertust eitt andartak í þessari high-five kveðju og á sama augnabliki mættust augu okkar. Hún hafði brún, lífleg augu og það var bros í þeim.

Inni á sjálfum kirkjugarðinum stóðu þrír verkamenn yfir nýrri gröf – þar lágu fjölmargir ferskir blómvendir – og fylgdust áhugasamir með þessari stuttu kveðju hlauparanna sem mættust. Það færðist bros yfir andlit þeirra og einn þeirra setti þumalfingurinn upp í loftið eins og ég hefði afrekað eitthvað. „Við verðum að elska hvert annað ellegar deyja,“ hugsaði ég.

„Áttu erfitt með að þola nasty skilaboð, illviljað umtal eða neikvæðni?“ spurði hálfókunnur maður mig í bréfi sem ég fékk í gær. Hann hafði reynt að komast inn á dagbókina mína, Kaktusinn, en ekki tekist það, enda hefur hún verið lokuð umferð. Hann hafði spurt hverju það sætti að síðan væri honum lokuð og ég hafði svarað eins og ég hef svarað öðrum sem hafa spurt.

Öll skilaboð og bréf sem ég fæ eru nær undantekningarlaust falleg, full af kærleika, ást og lestur þeirra veitir mér mikla gleði. En það kemur líka fyrir að ég fæ sérkennilegar og neikvæðar athugasemdir. Venjulega, ekki alltaf, hef ég gaman af þeim, finnst þær undarlega hressandi. Ekkert jafnast á við góða móðgun að morgni. Það fær hjartað til að slá. Slík skilaboð eru einskonar viðurkenning á maður hafi eitthvað að segja, að skoðanir manns skipti máli. Sá sem skrifar opinberlega og lætur í ljós skoðanir sínar verður að fá slíka kinnhesta af og til sem staðfestingu á að hann vinni vinnuna sína.

Það finnast háværar, neikvæðar raddir sem magnast og styrkjast á félagsmiðlunum – þessari skelfilegu túrbínu bræði og innilokaðrar reiði – en slíkar raddir eru ekki raddir fjöldans heldur tilheyra litlum, lokuðum hópi sem lifir og hrærist inni í sinni litlu bólu vonbrigða og andúðar. Á ferðum mínu í gegnum lífið – og hef ég farið víða og verið lengi á ferðinni – mæti ég nánast eingöngu velvilja, vinsemd og uppörvandi jákvæðni. Fólk er kærleiksríkt, virðir mann eins og maður er – hinn hrasandi maður – og er sjálft virðingarvert. Fólk er nær án undantekninga örlátt og ástríkt.

Tilvera okkar er háð því að við sýnum öðrum okkar bestu hliðar. Virkjum sköpunarmátt okkar og sköpunargleði. Neikvæðni, hundingsháttur, tortryggni og fjandskapur er ekki leiðin áfram. Við verðum að elska hvert annað ellegar deyja.

19.10.20. Að setja sjálfan sig í sviðsljósið.
Á göngu minni til hestanna í gær urðu óvænt nokkrir kunningjar á vegi mínum. Ég held að ég sé farinn að sjá eitthvað óskýrt ef hlutir eru mjög fjarri – ég er líka næstum nærblindur – að minnsta kosti þekkti ég ekki manninn sem gekk á sama vegi og ég fyrr en ég var alveg kominn upp að honum. Hann gekk með derhúfu í stíl við skóna hans; hvítt, blátt og rautt eins og í franska fánanum og bar undir handleggnum fjölrituð blöð, A4, og setti í póstkassa húsanna á veginum.
„Hvað ertu að bera út?“ spurði ég manninn sem virtist hálfuppgefinn bæði á líkama og sál.
„Ég er að bjóða alls konar þjónustu,“ hann rétti mér blaðið, ansi textaþungt blað, þar sem tíunduð voru verkefni sem hann gæti leyst vel og fljótt af hendi. Í niðurlagi bréfsins var langt mál um hæfni hans, afköst og önnur góð verk sem hann hefði tekið að sér og skilað framúrskarandi verki.

Hann fylgdist með mér lesa blaðið eins og hann biði eftir viðbrögðum og þegar ég sagði ekkert strax heldur rétti honum blaðið sagði hann mér að hann væri orðinn atvinnulaus og nokkuð örvæntingarfullur. „Ég dreifi þessu montblaði en ég kann alls ekki við að hæla sjálfum mér,“ sagði hann og benti afsakandi á blaðið.
„Þú ert ekki að ljúga neinu,“ sagði ég og reyndi að vera uppörvandi.

Ég segi frá þessum stutta fundi hér því ég rakst á grein í dagblaði eftir fræga, danska skáldkonu sem sagði frá glímu sinni við instagram-miðilinn. Hún, eins og fleiri, notar Instagram til að leyfa áhangendum sínum að fylgjast með vinnu hennar við að skrifa nýja bók, sýnir sjálfa sig tala við réttarmeinafræðinga, lögreglumenn og hjúkrunarfólk (hún skrifar glæpasögur) og hún leyfir Instagram-fylgjendum sínum að heyra af viðbrögðum lesenda og fjölmiðla við bókum sínum. PR og markaðssetning á nýjum bókum hefur æ meir flust yfir til samfélagsmiðlana. Á facebook og instagram er uppslögum deilt og forsíður bóka sýndar aftur og aftur. „Hér er bókin, þetta er kápan, baksíða, sjáið strætóauglýsinguna, nú er bókin númer eitt á metsölulistanum, fjórar stjörnur … “

Sjálfur er ég á Instagram og ég sé stundum þegar rithöfundar flagga eigin bókum og vina sinna. Til dæmis virðist nú vera einskonar herferð fyrir bók Kristínar Svövu Tómasdóttur sem er ljóðabók sem fjallar um dugnað kvenna, sérstaklega ljósmæðra og sængurkvenna, í gegnum aldirnar. Vinkonur hennar Hildur Knútsdóttir og Þórdís Gísladóttir deila hrifningu sinni á bókinni aftur og aftur. Svona geta höfundar hjálpast að. Ég veit ekki hvort þetta vekur áhuga á bókinni, svo kann vel að vera. Andri Snær og Hallgrímur Helgason eru líka duglegir við að kynna eigin verk á Instagram og á hverjum degi koma margvísleg ný myndefni um verk þeirra og vinnu.

Þessi glæpasagnadrottning sem segir frá í greininni og ég las um í dagblaðinu fékk fyrir nokkru athugasemd frá einum af fylgjendum sínum sem hljóðaði svo: „Verður þú aldrei leið á því að hæla sjálfri þér og gorta af verkum þínum? Það er eiginlega óþolandi að verða vitni að þessu!“ Þetta var eins og að fá kalda og slepjulega tusku í andlitið fannst þessum vinsæla rithöfundi. Hún velti fyrir sér að hætta á Instagram en varð að horfast í augu við að þetta var mikilvægur hluti af markaðssetningu bóka hennar. Ef hún stundaði ekki instagram-sýninguna mundu bækur hennar kannski ekki seljast eins vel.

Sjálfur hef ég, með hálfgert óbragð í munninum, sett slíkt sjálfshól á Instagram síðu mína og talið mér trú um að ég sé að standa með bókinni minni. Æ, ég veit það ekki. Mér finnst þetta allt hálf aumkunarvert ef ég á sjálfur í hlut.

18.9.2020: AÐ LEGGJA LYKKJU Á LEIÐ SÍNA.
Svo er haustið komið, síðdegi og kvöld. Smám saman lýkur vinnudegi og ég hef gert mitt besta og stundum aðeins betur. Og svo sofnar maður, dreymir sína drauma; suma órólega aðra sæta. Þegar ég vaknaði í morgun var allt kyrrt. Sólin, drifvot, rétt byrjuð að gægjast yfir hafflötin.

Í dag er sunnudagur. Hlaupin að baki og ég var óvenju léttur í spori. Kannski vegna þess hve ég var kátur yfir tveimur óvæntum skilaboðum – sem sátu enn í kroppnum á mér – frá tveimur ókunnugum mæðrum sem höfðu lesið nýju bókina mína (og líka þá fyrri) fyrir börnin sín. Þær vildu (hvor í sínu lagi) – með fallegum orðum – þakka fyrir skemmtunina. Ég varð svo glaður að ég sofnaði sæll með þessar kveðjur í huganum í gærkvöldi. Það þarf ekki mikið til að hressa langleggjaðan Íslending. Óskaplega er sumt fólk hugulsamt að hafa fyrir því að sáldra gleði á leið sinni og taka jafnvel á sig krók til þess.

Í gær valdi ég að ganga nýja leið því mig langaði að hitta hestana sem eru komnir á tún í hinum enda bæjarins. Þetta eru þrír svartir hestar sem hafa fremur lítið tún til afnota í skógarjaðrinum. Ég hafði ákveðið að hlusta á hljóðbók á leið minni til hestanna. En ég gleymdi mér svo yfir þessum lestri að ég gekk nærri því 20000 skref, framhjá hestunum, meðfram járnbrautateinunum og langt inn í skóg þar sem ég vissi aldrei í hvaða átt ég gekk. Ég bara gekk og gekk og smám saman fór að dimma og sólin hvarf bak við trén. Ég ákvað því, þegar ég áttaði mig á hve skuggsýnt var orðið, að ganga á sjávarlyktina og stefna niður í fjöru og þaðan heim. Það var viturlegt því ég var kominn vestur fyrir Helsingør og því var heimleiðin löng. Í dag ætla ég aftur að hitta hestana.

12.9.2020
Ég hafði ekki séð það fyrir að ég ætti eftir að nota heilan dag í að auglýsa sjálfan mig. En það gerði ég í gær. Mér finnst það ekki létt verk og þótt ég segi kannski ekki að ég skammist mín fyrir þessa iðju finnst mér þetta dálítið neyðarlegt. Ég ákvað sem sagt að skrifa til þeirra fjölmiðla sem mig langar að tala við þegar ég kem til Íslands vegna útgáfu nýju bókarinnar. Ég legg af stað með flugi þann 29. september frá Danmörku og lendi samdægurs á Íslandi. Ég hef þegar fengið flugmiða. Svo er það annað mál hvort flugfélagið flýgur á þessum degi. Þessi mikla auglýsingaherferð mín hefst því þann 5. október þegar ég er búinn að afplána einangrunarvistina í Hvalfirðinum.

Það gladdi mig auðvitað óskaplega að allir sem ég hafði samband við og hafa náð að svara erindi mínu voru yfirmáta jákvæðir og samvinnufúsir. Allir voru boðnir og búnir að greiða leið mína. Ég var því bæði snortinn og svolítið undrandi hvað mér var tekið af mikilli og innilegri hlýju. Allt bendir því til þess að þessi hlægilega PR-herferð mín heppnist því betur en ég hafði látið mig dreyma um.

Á meðan ég dundaði mér við að herja á fjölmiðlamenn á Íslandi gerði ég heimasíðu fyrir höfundinn, www.snaebjornarngrimsson.com. Allt er þetta frekar hégómlegt en ég neyðist víst til að berjast fyrir rithöfundarferlinum og þá verður maður að gera sitt besta til að selja bækur. Annars þarf ég að fara í byggingarvinnu, sem er kannski ágætt, en ekki það sem mig dreymir um.

ps. Ég hljóp í morgun mitt svokallaða langhlaup. Ég tek framförum. Ég hljóp suma kílómetrana nokkuð undir 5 mínútum (það er minna en 5 mín pr. km). Garmin úrið mitt sýnir að ég hef 46 í svokölluðum VO2 Max level sem þýðir að ég líkamasaldur minn er 20 ár. Yo!


11.9.2020
Tvisvar í lífi mínu hef ég unnið á bar; einu sinni á Ítalíu í Mílanó á hálfgerðum leynibar þar sem fáir komu. Hann hét Winslow & Winslow Old English Pub. Hitt skiptið vann ég á lítilli, aftar snyrtilegri krá í einu af úthverfum London rétt við Shelhurst Park sem heitir eða hét The Clifton Arms.

Eigandinn, Sofie, var Gyðingur með stóru G-i. Hún var ekki bara fyrst og fremst gyðingur hún var nánast eingöngu gyðingur. Hún talaði ekki um sig sem konu – hún var ung, greind og bráðfalleg – hún talaði ekki um sig sem bareiganda, þótt hún hefði afrekað það á unga aldri að eignast þessa krá og hún talaði ekki um sig sem dugnaðarfork þótt sjaldan hafi ég hitt duglegri manneskju. Hún taldi ekki skrefin sín. Hún var Gyðingur. „Ég er Gyðingur,“ sagði hún á hverjum degi.

Ég fór að hugsa um Sofie í gærkvöldi þegar ég rakst á setningu í bók sem ég var að lesa: Að óttast Drottinn er upphaf spekinnar. Og allt í einu birtist hún mér í huganum, Sofie og The Clifton Arms. Það er orðið langt síðan það var. En einmitt þessi sömu orð á ensku, The fair of the Lord is the beginning of wisdom ... voru prentuð með pínulitlu letri á gulan renning sem Sofie hafði límt á peningakassann á kránni. Í hvert skipti sem ég afgreiddi hina áköfu ensku bargesti – flestir með Crystal Palace trefil um hálsinn – las ég því þessi orð og þau sitja enn föst í mér.

Ég bjó ekki lengi í London en ég afrekaði að kaupa mér mótorhjól sem ég notaði til að ferðast um Suður-England þegar ég átti frí hjá Sofie. Ég hafði alltaf haft þann draum að flytjast um tíma til Englands, bæði foreldrar mínir og systir höfðu áður búið í Englandi og í mínum huga var England grösugar hæðir, mjóir hlykkjóttir sveitavegir, sveitakrár og heiðarlönd þar sem villihestar stóðu þöglir í heiðarþokunni.


Hér er hægt að fylgjast með nýjum færslum í dagbókina

Nýjar dagbókarfærslur beint í tölvupósti.

%d bloggurum líkar þetta: