RANNSÓKNIN Á LEYNDARDÓMUM EYÐIHÚSSINS (2019)
Guðjón G. Georgsson er nýfluttur í Álftabæ og fær Eyðihúsið á heilann. Milla vinkona hans sá aldrei Hrólf nágranna sinn, ríkasta mann þorpsins, sem bjó í Eyðihúsinu. Hann var víst skapvondur ógæfumaður sem sást sjaldan utandyra því sennilega var honum illa við annað fólk. Dag einn birtist dularfullur trékistill á bókasafnströppunum og bréf frá Hrólfi – þar sem bæjarbúar fá þrjár vísbendingar, þrjá lykla að leyndardómum lífs hans og fjársjóðum. Lausnin er ekki einföld. Og sannarlega ekki hættulaus. En þá er gott að Guðjón G. Georgsson og Milla eru saman í liði.
Rannsóknin á leyndardómum Eyðihússins eftir Snæbjörn Arngrímsson hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin 2019. Þetta er grípandi saga um heillandi og svolítið hræðilega ráðgátu, hugrökk og huglaus börn.
Rannsóknin á leyndardómum Eyðihússins hefur komið út í Danmörku og Svíþjóð.
RITDÓMAR:
✮✮✮✮✮ „Ég hugsa að ég komi því á engan hátt almennilega til skila í þessari umfjöllun hve rosalega spennandi bókin er og hve tilfinningalíf krakkanna er ótrúlega vel skrifað. Ég get heilshugar mælt með þessari bók fyrir alla, krakka, unglinga og fullorðna. Þótt markhópur bókarinnar sé sennilega börn á aldrinum 8-12 ára þá ættu allir að geta haft gaman að henni. Sérstaklega fullorðnir sem vilja upplifa eftirvæntingu og spennu æskunnar upp á nýtt.“
Lestrarklefinn
„Rannsóknin á leyndardómum Eyðihússins er verðugur handhafi Íslensku barnabókaverðlaunanna. Höfundi tekst á undraverðan hátt að skapa töfrandi en á sama tíma svolítið ógnvekjandi ævintýraheim.“
Erla María Markúsdóttir / Morgunblaðið
„Verulega góð og verðug verðlaunabók. Hæfileikar höfundar eru ótvíræðir.“
Kolbrún Bergþórsdóttir / Fréttablaðið
„Frábær bók fyrir alla krakka, spennandi, auðlesin og skemmtilega skrifuð.“
Yrsa Sigurðardóttir, rithöfundur
DULARFULLA STYTTAN OG DRENGURINN SEM HVARF (2020)
Glæsileg, rík og dularfull kona hefur keypt hús í Álftabæ en virðist engan áhuga hafa á neinum samskiptum við bæjarbúa. Dag einn hverfur ómetanleg froskstytta af heimili hennar. Á sama tíma virðist Doddi, bekkjarbróðir Millu, hafa gufað upp.
Á meðan áköf leit er gerð að Dodda reyna vinirnir Milla og Guðjón G. Georgsson að finna skýringuna á hvarfi hans, leysa ráðgátuna um froskstyttuna og komast að því hvort samhengi sé þar á milli. Þau flækjast þá inn í furðulegt glæpamál þar sem þau læra að skilja mikilvægi hjálpseminnar, gleðina sem felst í vináttunni og ofurkraftinn sem hugrekkið veitir.
Dularfulla styttan og drengurinn sem hvarf er önnur bók Snæbjörns Arngrímssonar. Fyrri sagan um Millu og Guðjón G. Georgsson, Rannsóknin á leyndardómum Eyðihússins, fékk Íslensku barnabókaverðlaunin 2019 og var tilnefnd til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur.